Það er stefna Sóma að vera leiðandi í allri starfsemi sinni og að fyrirtækið framleiði ávallt gæðavörur úr ferskustu hráefnunum hverju sinni. Fyrirtækið leitast við að framleiðsla og þjónusta fyrirtækisins uppfylli ávallt væntingar viðskiptavina þess með gæða- og öryggismál í fyrirrúmi. Við einsetjum okkur að vera í fremstu röð í allri starfsemi, vinna að stöðugum umbótum og að starfa ávallt í sátt við umhverfi og samfélag. Ávallt skulu mannauðs-, öryggis-, gæða- og umhverfismál höfð í fyrirrúmi og stöðugt skal vinna að umbótum þar á. Sómi skal vera eftirsóknarverður og öruggur vinnustaður þar sem jafnrétti er haft að leiðarljósi.
Við stefnum að því að vera áfram leiðandi fyrirtæki í matvælaiðnaði og vera ávallt fyrsta val neytenda og annarra viðskiptavina, framleiða ávallt örugg matvæli í miklum gæðum og vera öflug í vöruþróun og nýjungum á tilbúnum mat fyrir einstaklinga og fjölskyldur.
Gildi Sóma eru þrjú, gæði, ferskleiki og stöðugleiki og marka þau hegðun okkar og ákvarðanir.
Gæði: Mikið er lagt upp úr öryggi og gæðum matvæla. Við framleiðum ávallt fyrsta flokks matvæli úr gæðahráefnum og leggjum metnað í að upplifun viðskiptavina sé ánægjuleg.
Ferskleiki: Við framleiðum ferskar vörur daglega og leggjum mikið upp úr því að nota ávallt besta fáanlega hráefnið hverju sinni.
Stöðugleiki:. Vörurnar okkar eiga alltaf að vera eins og því sýnum við aga í vinnubrögðum og vinnum eftir ströngum ferlum til að tryggja stöðugleikann og framleiðum fyrsta flokks vöru sem viðskiptavinir geta treyst.
Gæði og matvælaöryggi eru einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi Sóma. Framleiðsluvörur fyrirtækisins skulu uppfylla opinberar reglur og kröfur sem um reksturinn gilda til að tryggja öryggi matvæla. Mikið er lagt upp úr að afhenda ávallt gæðavöru úr úrvals hráefnum sem standast væntingar viðskiptavina. Í fyrirtækinu er starfsrækt gæðakerfi sem byggir á HACCP aðferðafræðinni sem er mikilvægt tæki til að ná fram þeim markmiðum sem fyrirtækið setur sér sem eru:
Ávallt skal framleiða örugga gæðavöru úr úrvals hráefnum. Nota skal bestu fáanlegu hráefnin á hverjum tíma og skulu þau vera fersk, örugg og hrein og hljóta rétta meðferð til að tryggja gæði þeirra.
Mikið er lagt upp úr að framleiðsla sé alltaf eins til að tryggja stöðugleika matvæla. Framleiðsluvörur fyrirtækisins skulu ætíð uppfylla væntingar viðskiptavina.
Ávallt skulu góðir starfshættir viðhafðir og skal meðferð hráefna og vörumeðferð öll vera í samræmi við best þekktu aðferðir á hverjum tíma.
Þátttaka og skilningur starfsfólks og regluleg þjálfun er forsenda þess að viðhalda og bæta gæðakerfi fyrirtækisins. Allir starfsmenn fá viðeigandi þjálfun og fræðslu þannig að þeir þekki og skilji gæðastefnuna og fylgi henni í starfi sínu.
Sómi leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð og að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar. Stöðugt skal vinna að endurbótum í rekstri fyrirtækisins með það að markmiði að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið.
Áherslur í umhverfisstefnu Sóma
Fylgja skal lögum og reglum um umhverfismál og uppfylla opinberar kröfur sem gilda. Starfsmenn skulu vera meðvitaðir um mikilvægi verndunar umhverfisins.
Flokka skal sorp til endurvinnslu.
Áhersla á að nota efni og rekstrarvörur sem eru umhverfisvænar. Stöðug endurskoðun á umbúðum matvæla með umhverfissjónarmið í fyrirrúmi t.d. með minnkun plasts eins og kostur er en þó aldrei á kostnað öryggis matvæla.
Reynt eftir fremsta megni að lágmarka matarsóun.
Lágmarka akstur sendibíla, bensínkostnað og mengun með því að skipta akstursleiðum í hverfi.
Lágmarka notkun á rekstrar- og skrifstofuvörum. Minnka prentun/ljósritun með aukinni notkun kerfa á rafrænu formi.
Lágmarka orkunotkun. Kaupa tæki sem nota minni orku en önnur. Slökkt á tækjum þegar þau eru ekki í notkun.
Jafnréttis- og jafnlaunastefna Sóma
Markmið stefnunnar er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns skv. lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Sómi er vinnustaður þar sem starfsfólk er metið á eigin forsendum, hafa jafna möguleika og sömu réttindi í starfi. Stjórnendur Sóma skulu fylgja jafnréttis- og jafnlaunastefnu fyrirtækisins og vinna að auknu jafnrétti innan þess. Stefna þessi skal vera órjúfanlegur hluti af launastefnu Sóma.
Jafnréttis- og jafnlaunastefna Sóma felur í sér:
Sómi stefnir að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna og flokkast ákveðin störf ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.
Sómi greiðir starfsmönnum jöfn laun og sömu kjör fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf að teknu tilliti til menntunar (sem starfið krefst), starfsreynslu og frammistöðu.
Öll störf sem auglýst eru laus til umsóknar, eru opin öllum óháð kyni.
Sómi leggur áherslu á að starfsmenn geti samræmt vinnu og einkalíf.
Sómi gætir þess að allir starfsmenn, óháð kyni, hafi sömu tækifæri til starfsþróunar, endurmenntunar, náms og fræðslu.
Sómi líður ekki einelti, fordóma, kynbundið ofbeldi eða áreitni né kynferðislega áreitni á vinnustað.
Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á innleiðingu Jafnréttis- og jafnlaunastefnunnar, sem og eftirliti og umbótum við settum viðmiðum og viðbrögðum við frávikum.
Stefnan skal yfirfarin árlega af framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra og gæðastjóra Sóma.
Jafnréttis- og jafnlaunastefna þessi var samþykkt þann 13. janúar 2022 og skal endurskoðuð á þriggja ára fresti.
Mannauðsstefnan styður við gildi Sóma en markmið stefnunnar er að stuðla að starfsánægju meðal starfsmanna og að Sómi hafi yfir að ráða hæfu og áhugasömu starfsfólki sem sameiginlega skapar metnaðarfullt og jákvætt starfsumhverfi. Gott og ánægt starfsfólk er grunnurinn að vel reknu fyrirtæki og því eru starfsmenn Sóma ein af helstu auðlindum fyrirtækisins og lykillinn að framtíðarsýn þess um að vera fyrsta val viðskiptavina og neytenda.
Áherslur mannauðsstefnunnar:
Frumkvæði: Við ætlum að vera í fararbroddi, við erum dugleg að koma hugmyndum og skoðunum á framfæri svo við getum þróast og bætt störf okkar.
Samvinna: Við hjálpum hvert öðru og vinnum saman sem eitt lið. Við ræðum hlutina og sýnum skilning á störfum hvers annars. Við rýnum til gagns og hrósum hvert öðru þegar það á við.
Gaman: Við erum jákvæð og viljum hafa gaman í vinnunni. Við mætum með góða skapið og stillum okkur inn á rétta hugarfarið.
Virðing: Við hlustum og virðum skoðanir hvers annars og berum virðingu fyrir hvert öðru.
Traust: Við erum óhrædd við að segja skoðanir okkar því við treystum hvert öðru. Traust er grunnurinn að öflugu liði.
Samskipti: Við vöndum samskipti okkar hvort sem er í rituðu eða mæltu máli. Við erum lausnamiðuð og viljum hafa gott upplýsingaflæði.
Gæði: Góðir starfsmenn framleiða gæða vörur og veita gæða þjónustu. Við vöndum okkur í ráðningum á nýjum starfsmönnum, tökum vel á móti þeim og þjálfum til viðeigandi verka.
Ferskleiki: Við viljum viðhalda besta möguleika ferskleika á vörunum okkar sem og hjá okkur sjálfum.
Stöðugleiki: Stöðugleiki í starfsfólki er einn mikilvægasti þátturinn í rekstri okkar og því viljum við lágmarka starfsmannaveltu.
Sóma er annt um friðhelgi einstaklinga og tekur persónuvernd mjög alvarlega. Hjá Sóma fer vinnsla persónuupplýsinga fram á lögmætum grundvelli og í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Sómi hefur einsett sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sem unnið er með. Fyrirtækið gætir jafnframt að því að persónuupplýsingar séu ekki unnar frekar á þann hátt að vinnslan sé ósamrýmanleg upprunalegum tilgangi vinnslunnar.
Hafið samband við Sóma á [email protected] fyrir frekari upplýsingar um persónuverndarstefnuna.