Það er stefna Sóma að vera leiðandi í allri starfsemi sinni og að fyrirtækið framleiði ávallt gæðavörur úr ferskustu hráefnunum hverju sinni. Fyrirtækið leitast við að framleiðsla og þjónusta uppfylli ávallt væntingar viðskiptavina með gæða- og öryggismál í fyrirrúmi. Sómi einsetur sér að vera í fremstu röð í allri starfsemi, vinna að stöðugum umbótum og að starfa ávallt í sátt við umhverfi og samfélag. Ávallt skulu mannauðs-, öryggis-, gæða- og umhverfismál höfð í fyrirrúmi og stöðugt skal vinna að umbótum þar á. Sómi skal vera eftirsóknarverður og öruggur vinnustaður þar sem jafnrétti er haft að leiðarljósi.
Framtíðarsýn
Við stefnum að því að vera áfram leiðandi fyrirtæki í matvælaiðnaði og vera ávallt fyrsta val neytenda og annarra viðskiptavina, framleiða ávallt örugg matvæli í miklum gæðum og vera öflug í vöruþróun og nýjungum á tilbúnum mat fyrir einstaklinga og fjölskyldur.
Gildi Sóma eru þrjú, gæði, ferskleiki og stöðugleiki og marka þau hegðun okkar og ákvarðanir.
Gæði: Mikið er lagt upp úr öryggi og gæðum matvæla. Við framleiðum ávallt fyrsta flokks matvæli úr gæðahráefnum og leggjum metnað í að upplifun viðskiptavina sé ánægjuleg.
Ferskleiki: Við framleiðum ferskar vörur daglega og leggjum mikið upp úr því að nota ávallt besta fáanlega hráefnið hverju sinni.
Stöðugleiki: Vörurnar okkar eiga alltaf að vera eins og því sýnum við aga í vinnubrögðum og vinnum eftir ströngum ferlum til að tryggja stöðugleikann og framleiðum fyrsta flokks vöru sem viðskiptavinir geta treyst.
Gæði og matvælaöryggi eru einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi Sóma. Mikið er lagt upp úr að afhenda ávallt gæðavöru úr úrvals hráefnum sem standast væntingar viðskiptavina. Starfsemi fyrirtækjanna og framleiðsluvörur skulu uppfylla opinberar reglur og kröfur sem um reksturinn gilda til að tryggja öryggi matvælanna.
Í fyrirtækinu er starfrækt gæðakerfi sem byggir á HACCP aðferðafræðinni sem stuðlar að öryggi og góðum starfsháttum og er mikilvægt tæki til að ná fram þeim gæðamarkmiðum sem fyrirtækið setur sér.
Gæðamarkmið Sóma eru:
- Ávallt skal framleiða gæðavöru úr úrvals hráefnum. Nota skal bestu fáanlegu hráefnin á hverjum tíma og skulu þau vera fersk, örugg og hrein og hljóta rétta meðferð til að tryggja gæði þeirra.
- Framleiðsluvörur fyrirtækisins skulu ætíð uppfylla væntingar viðskiptavina.
- Framleiðsla skal vera stöðluð. Mikið er lagt upp úr að vörur séu alltaf eins í framleiðslu til að tryggja stöðugleika matvæla.
- Ávallt skulu góðir starfshættir viðhafðir og skal meðferð hráefna og vörumeðferð öll vera í samræmi við best þekktu aðferðir á hverjum tíma.
- Þátttaka og skilningur starfsfólks er mikilvægur þáttur í að viðhalda og bæta gæðakerfi fyrirtækisins. Allir starfsmenn fá viðeigandi þjálfun og fræðslu þannig að þeir þekki og skilji gæðastefnuna og fylgi henni í starfi sínu.
Sómi ehf. leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð og að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar. Stöðugt skal vinna að endurbótum til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið.
Áherslur í umhverfisstefnu Sóma
- Fylgja skal lögum og reglum um umhverfismál og uppfylla opinberar kröfur sem gilda. Starfsmenn skulu vera meðvitaðir um mikilvægi verndunar umhverfisins.
- Flokka skal sorp til endurvinnslu.
- Áhersla á að nota efni og rekstrarvörur sem eru umhverfisvænar. Stöðug endurskoðun á umbúðum matvæla með umhverfissjónarmið í fyrirrúmi t.d. með minnkun plasts eins og kostur er en þó aldrei á kostnað öryggis matvælanna.
- Reynt eftir fremsta megni að lágmarka matarsóun.
- Lágmarka eins og unnt er akstur, bensínkostnað og mengun sem því fylgir. Stefnt að því að rafmagnsvæða bílaflotann. Hagrætt er í sendibíla sem flytja vörur í búðir með því að skipta akstursleiðum upp eftir hverfum.
- Lágmarka notkun á rekstrar og skrifstofuvörum. Minnka prentun/ljósritun með aukinni notkun kerfa á rafrænu formi.
- Lágmarka orkunotkun, kaupa tæki sem nota minni orku en önnur. Slökkt á tækjum þegar þau eru ekki í notkun.
Markmið stefnunnar er að koma í veg fyrir mismunun og stuðla að jafnri stöðu alls starfsfólks og jöfnum tækifærum óháð kyni, aldri, uppruna sem og öllum öðrum ómálefnalegum þáttum skv. lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Markmiðið er einnig að Sómi sé eftirsóttur vinnustaður þar sem starfsfólk er metið á eigin forsendum og hefur jafna möguleika og sömu réttindi í starfi. Stjórnendur skulu fylgja jafnréttisstefnu fyrirtækisins og vinna að auknu jafnrétti innan þess.
Jafnréttisstefna Sóma felur í sér:
- Sómi greiðir starfsmönnum jöfn laun og sömu kjör fyrir jafn verðmæt eðasambærileg störf að teknu tilliti til menntunar (sem starfið krefst), starfsreynslu og frammistöðu. Sómi skuldbindur sig til að mismuna ekki starfsmönnum í kjörum og hlunnindum með ómálefnalegum hætti á grundvelli kyns.
- Viðhalda jafnlaunavottun fyrirtækisins.
- Öll störf sem Sómi auglýsir laus til umsóknar, skulu vera opin jafnt öllum kynjum (konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá).
- Sómi stefnir að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsfólks og flokkast ákveðin störf ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.
- Allt starfsfólk Sóma skal njóta sömu tækifæra til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.
- Sómi leggur áherslu á að starfsfólk geti samræmt starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, óháð kyni.
- Sómi líður ekki einelti, fordóma, kynbundið ofbeldi eða áreitni né kynferðislega áreitni á vinnustað.
- Sómi hvetur öll kyn til þess að nýta sér rétt til fæðingar- og foreldraorlofs.
- Sómi hvetur öll kyn til þess að nýta sér rétt til sorgarleyfis.
Tilgangur eineltisstefnunnar er að fyrirbyggja einelti, kynbundna áreitni og ofbeldi, kynferðislega áreitni og ofbeldi hjá Sóma og er þannig hegðun undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum.
Starfsmenn skulu ávallt sýna samstarfsfólki sínu kurteisi og virðingu í samskiptum og eru fordómar ekki liðnir. Lögð er áhersla á að starfsfólk sé ánægt með vinnustaðinn, bæði með starfsumhverfi og starfsanda.
Gripið verður til aðgerða gagnvart starfsfólki sem með orðum, látbragði eða atferli ógnar, truflar eða ögrar öðrum á vinnustað, leggur í einelti eða sýnir kynferðislega áreitni. Slík hegðun getur leitt til áminningar, tilflutnings í starfi eða uppsagnar.
Ef upp koma ágreiningsmál, samskiptaerfiðleikar eða hagsmunaárekstrar sem valdið geta óþægindum er mikilvægt að leysa slík mál án tafar áður en þau þróast til verri vegar.
Stefna þessi gildir fyrir allt starfsfólk Sóma og aðra sem málið varðar sbr. reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Mannauðsstefnan styður við gildi Sóma en markmið stefnunnar er að stuðla að starfsánægju meðal starfsmanna og að Sómi hafi yfir að ráða hæfu og áhugasömu starfsfólki sem sameiginlega skapar metnaðarfullt og jákvætt starfsumhverfi. Gott og ánægt starfsfólk er grunnurinn að vel reknu fyrirtæki og því eru starfsmenn Sóma ein af helstu auðlindum fyrirtækisins og lykillinn að framtíðarsýn þess um að vera fyrsta val viðskiptavina og neytenda.
Áherslur mannauðsstefnunnar:
- Frumkvæði: Við ætlum að vera í fararbroddi, við erum dugleg að koma hugmyndum og skoðunum á framfæri svo við getum þróast og bætt störf okkar.
- Samvinna: Við hjálpum hvert öðru og vinnum saman sem eitt lið. Við ræðum hlutina og sýnum skilning á störfum hvers annars. Við rýnum til gagns og hrósum hvert öðru þegar það á við.
- Gaman: Við erum jákvæð og viljum hafa gaman í vinnunni. Við mætum með góða skapið og stillum okkur inn á rétta hugafarið.
- Virðing: Við hlustum og virðum skoðanir hvers annars og berum virðingu fyrir hvert öðru.
- Traust: Við erum óhrædd við að segja skoðanir okkar því við treystum hvert öðru. Traust er grunnurinn að öflugu liði.
- Samskipti: Við vöndum samskipti okkar hvort sem er í rituðu eða mæltu máli. Við erum lausnamiðuð og viljum hafa gott upplýsingaflæði.
- Gæði: Góðir starfsmenn framleiða gæða vörur og veita gæða þjónustu. Við vöndum okkur í ráðningum á nýjum starfsmönnum, tökum vel á móti þeim og þjálfum til viðeigandi verka.
- Ferskleiki: Við viljum viðhalda besta möguleika ferskleika á vörunum okkar sem og hjá okkur sjálfum.
- Stöðugleiki: Stöðugleiki í starfsfólki er einn mikilvægasti þátturinn í rekstri okkar og því viljum við lágmarka starfsmannaveltu.
Jafnlaunastefna Sóma kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja öllu starfsfólki Sóma þau réttindi sem kveðið er á um í lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Sómi greiðir laun eftir umfangi og eðli starfa og er tekið mið af þeim kröfum sem störf gera óháð kyni. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við kjarasamninga, studdar rökum og tryggi að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.
Sómi skuldbindur sig til að:
- Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur Jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og öðlast og viðhalda jafnlaunavottun í samræmi við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
- Fylgja viðeigandi lagalegum kröfum og öðrum kröfum sem Sómi undirgengst varðandi meginregluna um að öllum kynjum skuli greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
- Vinna að stöðugum umbótum á jafnlaunakerfinu með virku eftirlit, innri úttektum og rýni stjórnenda. Bregðast skal við ef kröfur staðalsins eru ekki uppfylltar.
- Setja fram jafnlaunamarkmið sem eru rýnd árlega.
- Kynna jafnlaunastefnuna fyrir starfsfólki og hafa stefnuna aðgengilega almenningi.
Framkvæmdastjóri ber ábyrgð jafnlaunakerfinu og framgangi jafnlaunastefnunnar og skal hún vera órjúfanlegur hluti af launastefnu Sóma.
Öryggis- og vinnuverndarstefna Sóma miðar að því að skapa sterka öryggismenningu og að byggja upp heilsusamlegt vinnuumhverfi þar sem leitast er við að lágmarka áhættur í vinnuumhverfi starfsfólks.
Markmiðið er að koma í veg fyrir slys og óhöpp og skal allur aðbúnaður á vinnustað miða að því að viðhalda góðri heilsu og vellíðan starfsmanna og lágmarka þannig fjarvistir vegna veikinda og óhappa.
Áhætta er metin í allri starfsemi fyrirtækisins og unnið að stöðugum umbótum í öryggis- og vinnuverndarmálum. Atvik sem snerta eða ógna öryggi, heilsu eða vinnuvernd eru skráð og unnið úr þeim í forvarnarskyni.
Tilnefndir eru fulltúrar starfsmanna sem sinna öryggis- og vinnuverndarmálum og miðla þekkingu og upplýsingum til annarra starfsmanna. Allir starfsmenn skulu þó vera meðvitaðir um eigin ábyrgð hvað varðar öryggi og vinnuvernd á vinnustaðnum.
Öryggis- og vinnuverndarstefna Sóma byggir á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
Sóma er annt um friðhelgi einstaklinga og tekur persónuvernd mjög alvarlega. Hjá Sóma fer vinnsla persónuupplýsinga fram á lögmætum grundvelli og í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Sómi hefur einsett sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sem unnið er með. Fyrirtækið gætir jafnframt að því að persónuupplýsingar séu ekki unnar frekar á þann hátt að vinnslan sé ósamrýmanleg upprunalegum tilgangi vinnslunnar.
Hafið samband við Sóma á [email protected] fyrir frekari upplýsingar um persónuverndarstefnuna.